Virðisaukaskattur af RAFBÍLUM !

Stjórnvöld spila stórt hlutverk í framgangi rafbílavæðingar hér á landi eins og annarstaðar. Til skamms tíma hafa aðflutningsgjöld og tollar verið afnumdir af rafbílum og var það fest í sessi með breytingu á lögum frá Alþingi nú rétt fyrir jólin

Að auki hefur iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, lagt fram um miðjan janúar, mjög mikilvæga þingsályktunartillögu um orkuskipti í samgöngum. Í þessari tillögu er lagt til að Ísland skipi sér í forystusæti við notkun á endurnýjanlegri orku í heiminum.

 

 
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra á rafbíl

Tekið er á mikilvægum þáttum varðandi skattaumhverfið, orkusparnað, rannsóknir og þróun og stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun, svo nokkur atriði séu nefnd, auk samstarfs þeirra sem að orkuskiptum koma í landinu. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir því að hægt verði að fá virðisaukaskatt endurgreiddan af rafbílum.

Í lokaorðum tillögunnar segir;

        „Ef Íslendingar ætla að gegna forustuhlutverki í orkuskiptum í samgöngum er ljóst að þörf er á fullri niðurfellingu á virðisaukaskatti á visthæfum ökutækjum.“  

Þessar tillögur og framangreind lög sýna ótvírætt vilja stjórnvalda til að innleiða notkun á innlendum orkugjöfum í samgöngum. Við fögnum þessu mjög og teljum að stór skref séu tekin í átt að sjálfbærum samgöngum með þessum ákvörðunum. Ljúka þarf umræðum á Alþingi um þingsályktunartillöguna og samþykkja sem allra fyrst, svo hraða megi þjóðarátakinu um rafbílavæðingu Íslands.

18.1.2011